Fæðubótarefni úr hreinu íslensku hráefni

Hildur Þóra Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Pure Natura sem staðsett er á Sauðárkróki en fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á bætiefnum úr lambainnmat, kirtlum og jurtum.

Hver er Hildur ? 

Ég er í grunninn viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri, en að loknu námi þar fluttum við fjölskyldan til Danmerkur, þar sem ég lauk námi í fjármálum og alþjóðaviðskiptum.  Árið 2011 fluttum við svo að Ríp í Skagafirði, þ.e ég og maðurinn minn Halldór Gunnlaugsson og börnin okkar þrjú búum í dag. Reyndar ásamt nokkrum hestum, hænum og ketti.

Segðu okkur frá fyrirtækinu þínu.

Fyrirtækið var stofnað í september 2015 af frumkvöðlunum Hildi Þóru Magnúsdóttur, Rúnu Kristínu Sigurðardóttur og Sigríði Ævarsdóttur og er staðsett á Sauðárkróki.  Hugmyndina má rekja til hugmyndafræði sem nú er að ryðja sér til rúms í Bandaríkjunum og víðar og snýr að því að betri og nýtanlegri vítamín og bætiefni komi úr mat en úr gerfi efnum sem búin eru til á tilraunastofnum. Þessi nýja tegund bætiefna er því unnin úr raunverulegum matvælum, með öllum þeim efnum og samvirkni sem í þeim finnast og sett fram sem heildarpakki en ekki sem einstök, einangruð efni.

Þær vörur sem fyrirtækið hefur komið á markað eru: Pure Liver sem er hugsað sem blanda af lifur og völdum jurtum til styrkingar fyrir lifrina, Pure Heart er samskonar blanda nema fyrir hjartað, Pure Nutrition sem hentar vel sem næringaruppbót fyrir alla og Pure Power sem sérstaklega er hugsuð fyrir fólk sem vill meiri orku, er í líkamlegri erfiðisvinnu, líkamsrækt oþh.

Við viljum að sjálfsögðu gefa fólki kost á því að hugsa sem best um sig sjálft og þá sem því þykir vænt um. Það gerum við með því að bjóða upp á hágæða bætiefni sem innihalda mikið magn næringarefna í bland við þekktar lækningajurtir sem eru án allra aukaefna og lyfjaresta. Einnig hefur það skipt okkur máli að í dag eyða sláturhús töluverðu fjármagni árlega í förgun á hráefni eins og innmat og kirtlum sem Pure Natura vill nýta í vörur sínar. “ Í stað þess að farga þessu hráefni er hægt að vinna úr því hágæða fæðubót og búa þar með til pening í stað sóunar. „Við viljum styðja við aukna sjálfbærni í dilkaslátrun. Minnka sóun, auka meðvitund neytenda og stuðla að fullnýtingu afurðanna í heimabyggð

Hvernig fékkstu hugmyndina?

hugmyndina að baki fyrirtækisins má rekja til þess að ég sótti námskeið sem Sigríður Ævarsdóttir kenndi og snerist um það hvað konur geta gert til að bæta heilsu sína og líðan. „Sigríður fór yfir það á námskeiðinu hversu viðkvæm hormónastarfsemi kvenna er fyrir ýmsum eiturefnum í umhverfinu og mikilvægi þess að velja rétt þegar kemur að fæðu, snyrtivörum og öðru sem kann að innihalda þessi efni. Við Sigríður tókum höndum saman að námskeiði loknu og fengum til liðs við okkur Rúnu Kristínu Sigurðardóttur  og Halldór Gunnlaugsson, en saman eigum við fyrirtækið í dag.

Hvað er mest hvetjandi fyrir þig í þinni vinnu? Hvað er skemmtilegast?

Mér finnst allt í minni vinnu skemmtilegt, frá því að standa í hvítum sloppi með hárnet og prófa vinnsluaðferðir á hinum ýmsu hráefnum, yfir í vöruhönnun, umbúðir, markaðssetningu, áætlanagerð og fl. Ég reyni mikið að sækja í fræðslu og tengslanet, enda held ég að slíkt skipti miklu máli fyrir velgengni í starfi. „Ætli skemmtilegasti tíminn sé ekki akkúrat þessa dagana“ eftir að hafa lokið við þróun á fyrstu fjórum vörunum okkar og fá loksins að sýna fólki afrakstur þeirrar vinnu.

Hverjar eru helstu áskoranirnar? 

Það eru nokkrir þættir sem ég held að reynist frumkvöðlum almennt erfiðir en það er í fyrstanlagi fjármögnun verkefnanna og hinsvegar úthaldið. Eins og stundum hefur verið sagt, þá geta allir fengið góða hugmynd. En það að koma hugmyndinni þannig frá sér að eitthvað verði úr, það er allt annað mál. Það eru svo endalaust margir nýjir hlutir sem maður þarf að læra og má segja að þetta ferli í heild sinni sé bara einn besti skóli sem hægt er að fara í 🙂  Mjög erfitt getur svo reynst mörgum að vinna jafnvel launalaus í lengri tíma, en það er raunveruleiki sem frumkvöðlar þekkja vel.  Það að fá fjárfesta eða lánastofnanir að borðinu með sér getur einnig reynst þrautinni þyngri og það þyrfti að bæta, ef tryggja á framgang nýsköpunar í landinu.

 

Getur þú gefið öðrum frumkvöðlakonum góð ráð?

Ég myndi gefa þeim þau ráð að vera duglegar að leita eftir aðstoð, finna styðstu leiðirnar að markmiðum sínum og ekki finnast þær alltaf þurfa að finna upp hjólið. Svo er um að gera að reyna að hafa gaman að því sem þær gera og ekki má gleyma því að það er nauðsynlegt að trúa á og brenna fyrir verkefnið sitt. Ég segi bara áfram girl power!!!!

Nánari upplýsingar um fyrirtækið og vörurnar má finna á heimasíðunni https://www.purenatura.is