Fæ innblástur frá öðru fólki

posted in: fréttir, Uncategorized @is | 0

Íris Ösp Sveinbjörnsdóttir er frá Íslandi. Hún er hugmyndarík og frjór grafískur hönnuður, með BA próf frá Accademia Italiana í Flórens á Ítalíu. Hún býr enn í Flórens en hyggst flytja heim til Íslands innan fárra mánaða. Íris er sjálfstætt starfandi hönnuður, vinnur við auglýsingagerð og vöruþróun, en hefur gaman af öllu sem viðkemur sköpun. Það sem veitir henni mestan innblástur og ánægju er þegar hún hefur tök á að móta og hanna heildarútlit fyrirtækja. Hennar helsta áhugasvið er hönnun vörumerkja og vörulína. Hún hefur einnig mjög gaman af vinnu í þrívíddarforritum og að aðstoða fyrirtæki við ímyndasköpun og vinna með eigendum og stjórnendum.

Íris hannar einnig eigin vörur og koma hæfileikar hennar í grafískri hönnun vel í ljós í vörunum. Hún skrifaði, myndskreytti og hannaði í samstarfi við son sinn bókina Sokkaskrímslið og annaðist útgáfuna á Íslandi. Þá hefur Íris hannað skólínu sem hún vinnur nú að, að koma í framleiðslu. Skórnir eru með mynstri sem kaupendur lita sjálfir. Hún kallar línuna “Litaðu skrímslið mitt” en hugmyndin á bakvið vöruna er að eigendur taka þátt í hönnuninni, þeir skapa sína eigin skó. Sumir vilja skó með engum litum og hreinum línum, aðrir vilja marga liti, aðrir eiga sér uppáhaldsliti. Allir geta valið sína liti og leyft sköpunargleðinni að leika lausum hala.

„Það sem gefur mér langmestan innblástur er að vera innan um skapandi og duglegt fólk og ekki skemmir fyrir ef teymið er fjölbreytt og verkefnin krefjandi“

Íris vinnur líka mikið með ljósmyndun og ljósmyndavinnslu og er það eitt af hennar stærstu áhugamálum. Hún elskar að mynda fólk og blandar gjarnan saman ljósmyndum og grafískri hönnun.

„Að ná að fanga tilfinningar á mynd eða vekja tilfinningar við að horfa á mynd er stórkostlegur hlutur“.
Íris vinnur að mestu undir vörumerkinu PunkLand og heldur úti heimasíðunni: www.punkland.net og feisbókarsíðu https://www.facebook.com/design.punk.ice.land
Íris stofnaði feisbókar síðuna Skapandi fólk, sem er hugsuð sem vettvangur fyrir skapandi fólk á Íslandi. Þar geta hönnuðir og framleiðendur komið komið vörum sínum á framfæri, kynnt sig og komið á samstarfi. Síðan er einnig vettvangur til að kynna sig og kynnast örðum sem vinna á sama eða svipuðum vettvangi.

iris

iris-skor