Gisting á sveitaheimili í ómótstæðilegri náttúru

posted in: fréttir | 0

Lilja Gissurardóttir rekur gistiheimili á afskekktum stað á Vestfjörðum, nánar tiltekið að Laugabóli í  Arnarfirði, með stórkostlegt landslag við bæjardyrnar. Við tókum Lilju tali og forvitnuðumst um það hvernig hugmyndin varð til og hvernig gengur hjá henni í rekstrinum.

Ég er fædd og uppalin í vesturbæ Reykjavíkur en um tvítugt fluttist ég út land með þáverandi eiginmanni sem var landbúnaðarráðunautur. Á  þessum tíma kynntist ég landsbyggðinni og heillaðist af ósnertri náttúru Íslands. Næstu árin bjó ég á landsbyggðinni og var m.a. með kúabúskap og móðir þriggja barna. Ég fluttist svo erlendis þar sem ég bjó í um 10 ár og starfaði við tilfallandi störf m.a. við lífræna ræktun og á umboðsskrifstofu við tónlistarmenn sem við rákum.
Árið 2003 fluttist ég heim og fór í þroskaþjálfanám en réttindabarátta fatlaðra hefur verið samofin fjölskyldu minni lengi en ég á fatlaðan frænda. Á sumrin vann ég m.a. á Hótel Búðum og kynntist þannig ferðaþjónustu. Næstu árin starfaði ég sem þroskaþjálfi í Reykjavík og víðar og veitti m.a. dagsþjónustu fyrir fatlaða forstöðu í Borgarnesi þar sem ég stundaði nám samhliða við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri í umhverfisskipulagsfræðum. Þar fékk ég innsýn inn í skipulagsmál ferðamannastaða.
Fyrir um fimm árum fluttist ég svo að Laugabóli í Arnarfirði þegar að ég kynnist núverandi sambýlismanni Árna sem er hrossabóndi á Laugarbóli. Ég féll alveg fyrir Arnarfirðinum en ég hef komist að því að þrátt fyrir að vera alin upp í Reykjavík að ég vil hvergi annarsstaðar vera en í sveitinni. Ég fór að spá í hvað ég gæti gert hér þar sem engin þéttbýlisstaður er til að sækja atvinnu í akstursfjarlægð en vegirnir hingað lokast alveg á veturna en síðustu árin hef ég þurft að vinna í burtu meira og minna og ekki getað verið heima hjá mér á Laugabóli. Það var þó ekki fyrr en vegagerðin brúaði Ósána að aðstæður sköpuðust til að hægt væri að keyra að Laugabóli á venjulegum bílum.

Á þessum tíma var ég án vinnu. Ég fékk styrk til að vinna að eigin viðskiptahugmynd hjá Vinnumálastofnun um þróun ferðaþjónustu á Laugabóli. Þessi styrkur varð til þess að ég fékk tíma til undirbúnings og tók áhættuna á láta reyna á það að fara út í gistirekstur en við búum í stóru húsi auk þess að hér er heitt vatn svo að við erum bæði með sundlaug og pott. En við erum líka með hestana, kindur og ref.  Ég ákvað eftir að hafa kynnt mér ýmislegt í tengslum við ferðaþjónustu að búa til upplífun af því að bjóða ferðamönnumi heim til mín. Það er að búa til upplifun af því að vera inn á íslensku sveitaheimili í ómótstæðilegri náttúru.  Það þýðir m.a. að herbergin verða vera með karakter, ég var ekki að búa til nýtt Ikea heimili. Ég var því ekki að kaupa nýja hluti og gat farið af stað án þess að kosta miklu til en ég held að það sé gott að geta farið af stað án þess að ef til vill að taka mikla fjárhagslega áhættu og að ætla sér of mikið. Konseptið eða viðskiptahugmyndin sjálf skiptir miklu máli því  það verður að vera samkvæmni í því sem maður er að gera.  Það þarf að gefa hugmyndavinnunni nægan tíma og hafa skýra sýn á hvernig fyrirtæki maður vill reka. Ég byrjaði í vor og renndi algjörlega blint í sjóinn með eftirspurn. En það varð bara einhver sprenging, ég er búin að fá 700 gesti í sumar. Ég lít svo á að ég sé í lærdómsferli. Að læra hvað ferðamennirnir eru að sækjast eftir og hverjar séu þarfir þeirra.  Ég held að námið mitt sem þroskaþjálfi komi þarna að góðum notum. Við þurfum að temja okkur umburðarlyndi og eiga samskipti við ólíka einstaklinga og það er alltaf verið að mæla, meta og setja sér markmið, þessi vinnubrögð hjálpa til við að þróa reksturinn. Það líka að hafa alið upp þrjú börn og rekið stórt heimilil er heikmikil reynsla og svo er gott að hafa starfað við ferðaþjónustu m.a. á hóteli á sumrin hér áður.

Það er mögnuð náttúra hér og gönguleiðir umhverfis okkur eru bæði einstakar og stórkostlegar. Dynjandisfoss er í fáeina kílómetra frá en það er ein af perlum Vestfjarða og mikil upplifun hér af ósnertri náttúru og því er verið að bjóða upp á upplifun af heimili í einstakri náttúru úr alfara leið.  Nú er á samgönguáætlun  að vetrarsamgöngur verði hér innan örfárra ára með tilkomu Dýrafjarðarganga sem eykur möguleika til að hafa opið lengur og jafnvel allt árið og það er það sem hugmyndir mínar ganga út á núna. Við erum líka með það í huga ef að eftirpurnin verðu svona mikil að breyta hesthúsunum í hótel sem samt yrði með þessu heimilislega sniði en ég sé nú þegar fram á að þurfa að ráða inn fólk fyrir næsta sumar. Það að fara út í rekstur er fyrst fremst spurning um að þora að láta slag standa og fara af stað og hafa skýra mynd af því sem maður vill gera og gefa sér tíma í að þróa viðskiptahugmyndina.

lila-laugaboli

Lilja Gissurardóttir

laugabol-5

Það er fallegt í Arnarfirði

laugabol4

Hestastóð

laugabol-6

Sundlaugin að Laugabóli að kvöldi